news

Fréttapistill

15. 10. 2021

Kæru foreldrar á Koti

Það er sannarlega engin lognmolla á deildinni okkar og verkefnin æði mörg og spennandi sem eru í gangi. Börnin hafa nú verið að hittast í hópunum sínum og hefja formlega sína skemmtun, rannsóknir og tilraunir með verkefnið okkar: Náttúra og vísindi. Mikið hefur verið rætt um laufblöðin sem eru út um allt, auk þess að skoða og rannsaka hvernig þau líta út. Börnin skemmtu sér vel þegar komið var með fullan poka af laufblöðum í salinn og innihaldinu hellt úr. Þau fengu sannarlega að leika sér á táslunum og gleðin var stórkostleg. Börnin fengu líka spurningar um verkefnið sem þau svöruðu, næsta vor verða þau spurð sömu spurninga og þá verður gaman að sjá hvað þau hafa lært yfir veturinn.

Við ætlum að taka þátt í skemmtilegu e-twinning verkefni með Póllandi, Ítalíu, Spáni og Slóvaníu í vetur og tengist það líka náttúrunni, sögnum og frumefnunum fjórum: vatni, eldi, jörð og lofti. Mjög spennandi og gaman að sjá það tengjast okkar vinnu hér í leikskólanum.

Samskipti við Akurskóla eru byrjuð og allur hópurinn fór í heimsókn saman. Þar var tekið mjög vel á móti börnunum og þeim leyft að skoða allan skólann, sundlaugina og íþróttahúsið. Akurskóli er okkar heimaskóli og munum við fara reglulega í heimsóknir, í hringjekju í 1. bekk auk þess að taka þátt í ýmsum viðburðum og uppákomum skólans.

Bókasafnsferðir verða í vetur og skiptum við hópnum niður í fjóra hópa sem fara í nýja bókasafnið í Stapaskóla. Nú þegar hefur einn hópur farið og var tekið vel á móti börnunum, lesið fyrir þau og leyft þeim að skoða bækur.

Foreldrasamtöl verða þriðjudaginn 19. október og hangir listi uppi í fataklefanum svo þið getið skráð ykkur. Þar munum við fara yfir verkefni vetrarins, Hljóm2 og annað sem tengist barninu og líðan þess. Hlökkum til að sjá ykkur þar.

Við minnum á að nú er hægt að skoða myndir og myndbönd á Instagram og hvetjum við ykkur að skoða þær fréttir.

Í dag föstudag fóru börnin upp í Akurskóla að skoða skreytingar sem nemendur gerðu í tilefni af Hrekkjavöku - þið fáið eflaust myndir sendar sem fyrst.

Bleiki dagurinn var haldinn hátíðlegur í dag, flest börnin mættu í bleiku og hafragrauturinn skartaði bleikum lit.

Eins og þið sjáið og lesið er nóg að gera og verkefnin óþrjótandi enda eru börnin ykkar svo sannarlega frábær hópur.

Bestu þakkir fyrir vikuna og góða helgi.© 2016 - 2021 Karellen