news

Fréttir vikunnar

24. 09. 2021

Kæru foreldrar á Koti

Þessi vika hefur verið heldur betur viðburðarrík, þó sumar áætlanir okkar hafi ekki staðist. Enn eigum við eftir að fara í strætóferðirnar en þær verða sannarlega farnar um leið og færi gefst. Börnin hafa haft nóg fyrir stafni m.a. hist í hópum til að gera rannsóknir með laufblöð og gróður, til þess notuðu þau stækkunargler og teiknuðu laufblöðin. Einnig hittust þau í þremur hópum til að gera hugarkort um Náttúruna og hvað við finnum þar og auðvitað teiknuðu þau það sem þeim fannst áhugaverðast. Þetta verkefni tengist sögnum í umhverfinu og ætlum við að vinna með fjórar sagnir sem eru: vaxa, tína, gjósa og bráðna.

Nokkur börn gerðu athuganir á vatni og hringrás þess en Hrefna og Berglind eru með það verkefni í námi sínu. Tilraunirnar voru margvíslegar, að frysta vatn, sjá klaka bráðna, fylgjast með hvernig vatn gufar upp og hvernig vatnsmagnið breytist auk þess að fylgjast með fötum þorna og hvað það tekur langan tíma. Þetta tekur nokkra daga og eru börnin spennta að sjá hvað gerist í hverri tilraun.

Flest börnin hafa einnig farið í veiðiferð að veiða síli með háfum og hefur sú veiði tekist einstaklega vel og börnin skemmt sér konunglega.

Nú hafa langflest börnin tekið Hljóm-2 prófið og gaman verður að kynna niðurstöðurnar í foreldraviðtölunum í október.

Haldin var söngstund í salnum í fyrsta skipti í langan tíma en Systa mætti með gítarinn og hittust allar deildirnar nema Laut. Þar stóðu elstu börnin sig frábærlega en þau fóru með vísuna okkar um haustið auk þess sem sungin voru ýmis lög með öllum hópnum. Söngstundir verða framvegis alla fimmtudagsmorgna kl. 9.20.

Bestu þakkir fyrir vikuna, njótið samvistanna og góða helgi.

© 2016 - 2021 Karellen