Hafa samband
main_image

Upplýsingar

Fjöldi barna
Í skólanum eru 100 börn.   Boðið er upp á breytilegan vistunartíma, hægt er að velja um 4, 5, 6 og 8 tíma vistun.

Opnunartími
Skólinn er opnaður kl. 7:30 á morgnana og er opinn til kl. 16:15.  Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að virða þann vistunartíma sem þeir hafa samið um í upphafi

Viðtalstímar
Leikskólastjóri hefur viðtalstíma eftir samkomulagi.  Aðstoðarleikskólastjóri og deildarstjórar hafa viðtalsíma eftir þörfum.

Fjarvistir
Vinsamlegast tilkynnið ef barn er fjarverandi vegna veikinda eða annarra orsaka.

Óskilamunir

Foreldrar eru beðnir um að líta reglulega í körfuna með óskilamunum og athuga hvort eitthvað sé þar sem börn þeirra eiga.  Nauðsynlegt er að merkja föt barnanna vel t.d. er hægt að kaupa sérstaka miða til að merkja föt þar sem fram kemur nafn barnsins og símanúmer.

Matseðill
Matseðill fyrir vikuna hangir í andyri leikskólans og á vefsíðu leikskólans.  Þar geta foreldrar séð hvað börn þeirra fá að borða.  Lögð er áhersla á fjölbreytta og holla fæðu.
Það getur komið fyrir að breyta þurfi matseðli vegna óviðráðanlegra orsaka.

Leikskólagjöld

Vistgjöld eru greidd fyrirfram.  Hægt er að velja sér greiðsluform, beingreiðslur í banka eða greiðslukort.  Sé skuld foreldra orðin tveir mánuðir eða meira, eiga þeir á hættu að barn þeirra missi plássið.  Uppsagnarfrestur er einn mánuður.  Athugið að gjaldið lækkar ekki þó barnið sé í fríi eða veikt í einhvern tíma.

Ferðir
Oft er farið í ferðir út fyrir leikskólann svo sem í gönguferðir um bæinn eða í lengri ferðir.  Þá förum við með börnin í strætisvagni. 

Frídagar
Starfsfólk leikskóla á rétt á fimm skipulagsdögum á ári.  Þá er leikskólinn lokaður, dagarnir eru nýttir til faglegrar vinnu og endurmenntunnar.  Foreldrum er tilkynnt um þessa daga með mánaðar fyrirvara.  Leikskólinn er lokaður vegna sumarleyfa 24 virka daga yfir sumartímann.  Leikskólinn er lokaður á aðfangadag og gamlársdag.


Fatnaður
Þar sem leikskólinn er vinnustaður barnanna er nauðsynlegt að klæðnaður barnanna sé í samræmi við það.  Börnin eru að vinna með margs konar efni og alltaf geta orðið óhöpp.  Nauðsynlegt er að börnin hafi með aukaföt í töskunni.  Klæðnaður skal alltaf vera í samræmi við veðurfar.  Nauðsynlegt er að hafa góð útiföt s.s. stígvél, regnföt og hlýjan fatnað.  Mjög gott er að merkja allan fatnað þá eru minni líkur á að eitthvað glatist.  Við leggjum mikla áherslu á að þjálfa börnin sem mest í að klæða sig sjálf, látið því ekki koma ykkur á óvart þótt húfan snúi öfugt eða stígvélin séu með krummafót.  Það skiptir minna máli en sjálfstæði barna ykkar.


Óhöpp - slys
Í stórum barnahóp geta alltaf orðið óhöpp.  Ef barn meiðir sig hjá okkur það illa að við teljum þörf á að láta lækni skoða barnið, þá reynum við strax að hafa samband við foreldra svo þeir geti verið með barni sínu hjá lækninum.  Börn í leikskólum Reykjanesbæjar eru slysatryggð á meðan þau dvelja í leikskólanum.


Afmæli barnanna
Afmælisdagur er stór dagur fyrir barnið.  Haldið er upp á hann í leikskólanum.  Það sama á við þegar barn hættir í leikskólanum.  Mikilvægt er að samvinna sé á milli leikskólans og foreldranna um hvernig haldið er upp á þessa daga.  Við syngjum afmælissönginn. Afmælisbarnið fær síðan að bjóða hinum börnunum upp á poppkorn á eldri deildum og saltstangir á yngstu deild.


Starfsáætlun - Leikskólanámskrá
Leikskólinn vinnur starfsáætlun fyrir hvert starfsár.  Skýrsla liðins árs liggur frammi hjá leikskólastjóra og á vefsíðu skólans og er foreldrum frjálst að skoða þá skýrslu.